Hafið þið áhyggjur af kjaraviðræð­unum?

„Já, við höfum miklar og þungar áhyggjur eins og að ég held allir aðrir, hvar sem þeir standa. Það hefur ákaflega mikið áunnist á undanförnum árum og við höfum séð raunverulega kaupmáttaraukningu," segir Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka.

Mikil ábyrgð hvílir á samningamönnum

„Það eru engin áhöld um að það þarf að taka á lægstu laununum. Vonandi auðnast mönnum að gera það í þessum aðgerðum núna. Mér finnst einhvern veginn miðað við þessar tölur sem er verið að nefna núna að menn séu komnir alveg á ystu brún. Ég held að menn, hvoru megin sem þeir sitja, hljóti að finna til mikillar ábyrgðar núna. Það er hægt að glutra niður miklu sem hefur áunnist," segir hann jafnframt.

„Nú eru örfáir dagar til stefnu, áður en fer verulega í óefni. Við erum farin að finna þetta hér í bankanum, því eins og ég segi þá er afkoma okkar í grunninn ekkert nema afleiðing þess sem er að gerast hjá okkar viðskiptavinum."