Margt hefur drifið á daga tæknimenntafyrirtækisins Skema síðan það var stofnað árið 2011 en nýlega komst bandarískt móðurfélag þess, reKode Education, inn í Kaplan Techstars sem er virtur viðskiptahraðall vestanhafs sem sérhæfir sig í aðstoð við tæknimenntafyrirtæki. Fyrirtækið, sem Rakel Sölvadóttir stofnaði, byggir á sérstakri aðferðafræði til að kenna ungu fólki að forrita. Aðferðafræðin er sprottin úr fjölbreyttum rannsóknum í sálfræði, kennslufræði og tæknifræði og hefur gefist vel hér á landi.

„Að komast inn í þennan hraðal er erfiðara en að komast inn í Harvard eða Yale,“ segir Rakel. „Umsóknarferlið er mjög stíft. Það voru í þessari umsóknarhrinu 500 fyrirtæki sem sóttu um og aðeins tíu sem komust inn. Kröfurnar eru mjög miklar varðandi stofnendur, viðskiptahugmyndirnar og viðskiptamódelin. Við höfum í þessum viðskiptahraðli aðgang að meira en 90 „mentorum“ sem eru bestir á þessu sviði, hvort sem það eru fjárfestar, frumkvöðlar eða reynsluboltar úr atvinnulífinu. Ég ásamt Þórunni Jónsdóttur, rekstrarstjóra reKode, munum vera samfleytt í þrjá mánuði, frá morgni til kvölds, í skrifstofum Techstars í New York og verðum undir leiðsögn þessara „mentora“. Sumir segja að þetta sé eins og að taka MBA nám á þremur mánuðum, nema með uppbyggingu ákveðins fyrirtækis í grunninn,“ segir Rakelog bætir því við að hraðallinn nýtist einnig við fjármögnun verkefnisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.