Fyrrverandi fjármálastjóri VMA sem var dæmd fyrir fjárdrátt í seinasta mánuði hafði dregið sér fé frá árinu 2005, sama ár og hún höf störf hjá skólanum. Í hvert sinn hafði konan millifært hundruð þúsunda á eigin reikning, alls 138 sinnum. Heildarfjárhæðin sem um ræðir eru rúmar 26 milljónir króna.

Veikindaleyfi kom upp um brotin

Málið komst upp þegar fjármálastjórinn hafði verið í veikindaleyfi og annar starfsmaður var fenginn til að ganga í verk sem hún hafði áður sinnt. Kom þá í ljós að af reikning í eigu VMA hjá Landsbankanum, sem stjórnendur höfðu ekki vitneskju um að væri til, hafði hún dregið sér rúmar 26 milljónir króna yfir langt tímabil

„Þetta mál komst upp þannig að skrifstofustjórinn hérna, Björk Guðmundsdóttir, hún var að vinna í bókhaldinu vegna þess að þessi fyrrverandi starfsmaður hann var í veikindaleyfi sem lengdist. Fyrir bragðið þá varð skrifstofustjórinn að fara í verkin hans og þá kom þetta í ljós," segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA í samtali við RÚV.

Ljóst hafi verið að brotaviljinn hafi verið einbeittur. Hjalti segir það hafa verið talsvert áfall fyrir stjórnendur skólans þegar upp komst um málið.