Árið 2002 stofnaði Elon Musk geimflaugafyrirtækið Space X. Markmið kappans var að hanna endurnýjanlegar geimflaugar, gera geimferðir ódýrari og að lokum að komast á plánetuna Mars.

Takmarki Elons um ferðalög til Mars hefur ekki enn verið náð. Fyrirtækið skráði sig þó í sögubækurnar fyrr á árinu, þegar Falcon 9 geimflaug SpaceX náði að lenda á pramma í Atlantshafi.

Í morgun náði fyrirtækið að lenda Falcon 9 geimflaug í sjötta sinn, eftir að hafa komið japönsku gervitungli á sporbaug. Þetta kemur fram á vef International Business Times.

Tilgangurinn með því að lenda eldflaugarhlutanum er að draga stórlega úr kostnaði við geimskot. Tækni SpaceX lofar góðu og eru verkefnin nú þegar farin að hrúgast á fyrirtækið. Elon Musk hefur áður komið heiminum á óvart og er það líklegast bara tímaspursmál hvenær SpaceX byrjar að stefna á Mars.