Tölvuleikjaframleiðandinn Plain Vanilla kom í júlí með tvær milljónir dala til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, jafnvirði rúmlega 240 milljóna íslenskra króna.

Fram kemur í tilkynningu frá Plain Vanilla að nýverið hafi verið ákveðið að setja aukið fjármagn í markaðsstarf hjá fyrirtækinu og í ágúst var ráðinn markaðsstjóri frá Bandaríkjunum, Neal Ostrov, en hann starfaði áður hjá samfélagsmiðlinum Mobli.

Haft er eftir Ými Erni Finnbogasyni, fjármálastjóra Plain Vanilla, að gott sé að fá fjármagnið. „Við erum nú á lokaspretti þróunar á nýjustu vöru fyrirtækisins. Slík þróun er eðli málsins samkvæmt afar kostnaðarsöm enda þarf til hennar mjög sérhæft starfsfólk með mikla þekkingu, sem er sem betur fer töluvert af hér á landi. Einnig hafa útgjöldin verið að aukast vegna fjölgunar starfsfólks og ýmissar annarrar þjónustu sem við kaupum hér á landi.“

Í næsta mánuði hyggst Plain Vanilla kynna nýjustu afurð sína, samfélagsnet í kringum spurningaleiki sem fyrirtækið hefur verið að þróa fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Spilarar munu geta spilað spurningaleiki og tengst við spilara í sama bæjarfélagi eða hinum megin á hnettinum. Nýi leikurinn mun stórauka möguleika spilara til að tengjast hvor öðrum. Um hundrað þúsund spurningar verða í gagnagrunninum til að byrja með í yfir hundrað flokkum, en um er að ræða stærsta gagnagrunn sinnar tegundar í heiminum, að því er segir í tilkynningunni.