Aflaverðmæti fiskiskipaflotans nam 95,6 milljörðum króna á fyrstu sjö mánuðum ársins. Þetta er 11,5 milljörðum króna meira verðmæti en á sama tíma í fyrra, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Þetta jafngildir tæplega 14% meira aflaverðmæti.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að aflaverðmæti botnfisks nam 58,9 milljörðum króna á þessu sjö mánaða tímabili á árinu og var það 7,7% aukning á milli ára. Til samanburðar nam verðmæti 54,6 milljörðum króna í fyrra. Verðmæti þorskafla var um 30,1 milljarður króna og jókst það um 14,3% frá í fyrra.

Þá nam verðmæti uppsjávarafla um 25,4 milljörðum króna fram til loka júlí. Það er 28,8% meira en á sama tímabili í fyrra. Aukningin skýrist einkum af 13 milljarða loðnuafla á tímabilinu. Til samanburðar nam loðnuaflinn 8,7 milljörðum króna á fyrstu sjö mánuðum síðasta árs.

Hagstofan