Boeing tilkynnti í gær að fyrirtækið þurfi að endurhanna hluta af nýrri flugvél þeirra, 787 Dreamliner vél. Þetta þykir benda til þess að komu vélarinnar á markað verði frestað í þriðja sinn.

Dreamliner flugvélin mun taka 250-300 farþega og er hönnuð til að geta flogið langar vegalengdir í einu. Eftir að fyrsta frestun á sölu vélarinnar var tilkynnt skipti Boeing um yfirmann verkefnisins. Það hefur þó ekki dugað til þar sem sölunni hefur verið frestað tvisvar síðan.

Að sögn Financial Times munu væntanlegir kaupendur vélarinnar líklega sækjast eftir fébótum vegna frestunarinnar. Þegar hafa verið pantaðar 857 Dreamliner vélar, að andvirði 140 milljarða dollara. Hversu mikill hagnaður verður eftir handa Boeing eftir að fyrirtækið hefur greitt skaðabætur vegna tafanna er ekki vitað, en sérfræðingar vestan hafs eru svartsýnir á að hann verði ýkja mikill, ef nokkur.