Álagning komugjalda á ferðamenn sem koma til Íslands gæti haft þau áhrif að færri ferðamenn koma til landsins yfir höfuð. Þetta kemur fram í frétt Túrista .is um málið.

Talsvert hefur verið rætt um álagningu þriggja til fimm þúsund króna komugjalds á hvern farþega sem til landsins kemur - en meðal annars hafa Guðni Ágústsson og Friðrik Pálsson rætt um þennan möguleika í viðtölum og greinum í Morgunblaðinu. Þá hefði 5000 króna komugjald á hvern ferðamann getað skilað 6,5 milljörðum í ríkissjóð á síðasta ári.

Slík gjaldtaka gæti þó haft eyðileggjandi áhrif á íslenska ferðaþjónustu, að mati Önnu Nielsen, upplýsingafulltrúa SAS.  Hún segir gjaldtökuna geta haft þau áhrif að framboð á flugi til landsins dragist saman, og hefði því þar af áhrif á almenna eftirspurn innan ferðaþjónustugeirans á Íslandi.

Norðmenn hafa farið slíka leið sem hefur verið umdeilt þar í landi, en þar er sérstakt flugvallagjald upp á 1.300 íslenskar krónur sem hver og einn, hvort sem er útlendingur eða innfæddur, greiðir við notkun flugvalla.