Samkvæmt svari Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra við fyrirspurn Oddnýjar Harðadóttur fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar, og þingmanns flokksins, hefði 1.500 króna komugjald á hvern farþega í millilandaflugi skilað ríkinu tæpum þremur og hálfum milljarði króna í fyrra.

Er það þó talsvert hærri upphæð en það gjald sem nýverið var sett á í Noregi og er til skoðunar að setja í Svíþjóð, að því er Túristi bendir á. Er í báðum löndum miðað við 80 krónur í norskum og sænskum krónum sem gerir um 930 til 960 íslenskar krónur miðað við gengi dagsins í dag, en ef miðað er við meðalgengi norsku krónunnar í fyrra er upphæðin um 1.100 krónur.

Ef gjaldið væri álíka og það er hjá þessum frændþjóðum okkar hefði gjaldið skilað um 2,5 milljörðum króna á síðasta ári.

Lagt einnig á innlandsflug

Í svari Benedikts kom jafnframt fram að það væri vafamál hvort ESB reglur krefðust þess að sömu álögur þyrfti að setja á innanlandsflug, en sú ákvörðun að gera það hefur verið mjög umdeilt í löndunum báðum. Ef gjaldið hefði verið á í fyrra hefðu íslenskir farþegar greitt um 23% af heildarupphæðinni, eða 800 milljóna króna auka skattgreiðslu til ríksins, en enn meira ef innanlandsflugið væri inni í því.

Til samanburðar skilaði 100 króna gistináttagjald í fyrra 390 milljónum en Túristi bendir á að með gistináttagjaldi er vægi innlendra á móti erlendra greiðenda mun lægra, því Íslendingar séu um 13% þeirra sem gista á hótelum hér á landi. Bendir síðan jafnframt á að víða um Evrópu sé gjaldið oft hærra eða lagt á hvern hótelgest, sem geti skilað mun hærri tekjum.