Stöðnun á fasteignamarkaði á Íslandi samfara efnahagsþrengingum, ofurvöxtum og óhagstæðu fjármálaumhverfi veldur nú nokkrum verðlækkunum á fasteignum.

Þannig lækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 8,5% á undanförnum tólf mánuðum samkvæmt tölum Fasteignaskrár Íslands frá 16. apríl. Þar af var lækkunin 6% á síðustu þrem mánuðum.

Á sama tíma hlaða fasteignalánin á sig vöxtum og verðbótum. Ásgeir Erling Gunnarsson, löggiltur fasteignasali hjá Húsanausti, segir þó erfitt að meta stöðuna þar sem engin raunveruleg verðmæling fari fram á markaðnum vegna lítilla viðskipta.

Sú mæling sem þó sé stuðst við byggi að miklu leyti á verðmyndun í makaskiptasamningum sem sé kolröng þar sem báðir aðilar miði við uppskrúfað eldra verðmat. Telur hann að um 30-40% af allri sölu sé í formi makaskiptasamninga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu.