*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 4. apríl 2020 11:04

Komust hjá tug milljarða tilboði

Með yfirtökutilboði hefði Samherji þurft að bjóða um hátt í tuttugu milljarða króna í 70% hlut í Eimskip.

Ingvar Haraldsson
Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóra Samherja.
Haraldur Guðjónsson

Hlutabréfaverð í Eimskip féll um 6% í fyrstu viðskiptum eftir að greint var frá því að Samherji hefði óskað eftir því að falla frá yfirtökuskyldu á félaginu í síðustu viku. Fjármálaeftirlit Seðlabankans heimilaði á þriðjudag að veita félaginu undanþágu frá yfirtökuskyldu í Eimskip vegna óvenjulegra aðstæðna.

Eftirlitið telur vernd minnihluta hluthafa hafa verið tryggða. Með yfirtökutilboði hefði Samherji þurft að bjóða um hátt í tuttugu milljarða króna í 70% hlut í Eimskip.

Samherji boðaði yfirtökutilboð í Eimskip að kvöldi 10. mars. Þá jók Samherji hlut sinn í Eimskip í 30,11% og fór þar með yfir 30% yfirtökuskyldumörkin. Í viðskiptum næsta dags, 11. mars, hækkaði gengi bréf félagsins úr 135 krónum á hlut í 150 krónur á hlut í hálfs milljarðs króna viðskiptum.

Lífeyrissjóðir eiga meirihluta í Eimskip

Gera átti öðrum hluthöfum yfirtökutilboð á næstu fjórum vikum, eins og lög kveða á um. Íslenskir lífeyrissjóðir eiga samanlagt ríflega helmingshlut í Eimskip. Frá boðuðu yfirtökutilboði Eimskips var hverju landinu á fætur öðru lokað fyrir erlendum gestum og útgöngubönnum skellt á þó enn væri opið fyrir vöruflutninga. Viku síðar, eða 17. mars, var hætt við tillögu um kaup eigin bréfa á aðalfundi Eimskips 26. mars vegna óvissu í efnahagsmálum.

Eftir lokun markaða föstudaginn 20. mars gaf Samherji út að félagið hefði óskað eftir því að fá að falla frá yfirtökuskyldu á félaginu. Aðstæður í efnahagslífinu og fjármálamörkuðum hefðu gjörbreyst á skömmum tíma. Trú Samherja á Eimskip væri þó óbreytt. Bréf félagsins féllu um 6% í viðskiptum næsta viðskiptadags, mánudaginn 22. mars. Þriðjudaginn 23. mars seldi Samherji sig svo niður í 29,99% hlut í Eimskip og var þar með komið undir yfirtökumörkin.

Degi síðar var tilkynnt um að afkomuspá félagsins hefði verið felld úr gildi vegna óvissu á mörkuðum. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Eimskip Samherji