Málminnflutningsfyrirtækið Guðmundur Arason ehf., eða GA Smíðajárn eins og það er nefnt í daglegu tali, varð 40 ára á miðvikudag. Anna Jóhanna Guðmundsdóttir forstjóri fyrirtækisins segir það gæfu fyrirtækisins að hafa gott og traust starfsfólk, sem unnið hefur þar lengi og leggi sig fram við að veita sem besta þjónustu. „Það er aðall sérhvers fyrirtækis að hafa góða starfsmenn með mikla starfsreynslu."

Anna segir að það sé afar erfitt að reka fyrirtæki á Íslandi við þær aðstæður sem nú ríkja. Þeim hafi í ágúst 2007 boðist að kaupa Sindra-Stál ehf, sem var verulega spennandi kostur, sem gæfi möguleika á því að efla til muna innflutning á ryðfríu stáli, áli og plasti. Allar áætlanir sýndu að kaupin yrðu mikil lyftistöng fyrir fyrirtækið. Horfurnar virtust því bjartar er bankahrunið reið yfir ári seinna. - „Það setti auðvitað strik í reikninginn þegar maður stóð allt í einu með tvöfalt hærri skuldir en lagt var upp með." Þrátt fyrir þetta hefur fyrirtækinu tekist að halda sjó.

„Við höfum staðið okkur vel í gegnum tíðina og hyggjumst gera það áfram. Orðspor okkar er gott og því ætlum við að halda. Strax eftir kaupin á Sindra-Stáli hófumst við handa við að stækka húsnæðið okkar í Hafnarfirði og höfum nú að mestu lokið við það. Við ætlum að þrauka í gegnum þetta."

Sjá nánar í nýjasta tölublaði Viðkiptablaðsins