Einkahlutafélag Steinunnar Jónsdóttur er eina félagið í eigu einstaklings sem skráð er á lista yfir 20 stærstu hluthafa Eimskips. Listinn var birtur í gær. Hún á 1,2% hlut í Eimskipi í nafni einkahlutafélagsins Arkur ehf. Ætla má að markaðsverðmæti hlutarins nemi rétt tæpum 530 milljónum króna.

Keypti milljóna hryssu og gaf sundlaug

Steinunn er 44 ára. Hún komst í fréttir nýverið þegar hún keypti hryssuna Þrift frá Hólum fyrir tæpar 30 milljónir króna. Hún á auk þess Listasetrið Bæ á Höfðaströnd við Hofsós sem er aðsetur listamanna og arkitekta yfir sumartímann. Þar er gallerí og nokkrar sýningar haldnar á hverju sumri. Steinunn gaf ásamt Lilju Pálmadóttur, konu Baltasars Kormáks, íbúum Hofsós 25 metra útisundlaug árið 2007. Sundlaugin var vígð við hátíðlega athöfn snemma árs 2010.

Á eignir upp á 4,6 milljarða í eigin félagi

Steinunn Jónsdóttir / Mynd MBL
Steinunn Jónsdóttir / Mynd MBL

Steinunn er skráður eigandi fyrir minnsta fyrir tveimur stórum eignum. Í fyrsta lagi er það einkahlutafélagið Arkur, sem hún á að öllu leyti sjálf, og hlutur í fjölskyldufélaginu Straumborg. Hún var skráð fyrir 14% hlut í félaginu í árslok 2010. Straumborg á 22% hlut í Norvik, sem á Byko, Krónuna og fleiri fyrirtæki.

Straumborg átti eignir upp á rúma 24 milljarða króna í lok árs 2010. Eigið fé félagsins var hins vegar neikvætt um 5,9 milljarða á sama tíma.

Arkur skilaði uppgjöri fyrir síðasta ár seint í síðasta mánuði. Fram kemur í uppgjörinu að félagið hagnaðist um 354,8 milljónir króna á síðasta ári. Það bætist við 92 milljóna króna hagnað árið 2010. Vaxtatekjur og verðbætur vega þyngst í afkomu Arks en þær námu 427 milljónum króna í fyrra og 335 milljónum króna í hittifyrra.

Félagið átti á síðasta ári eignir í innlendum félögum fyrir einn milljarð króna sem var 330,8 milljónum meira en árið 2010. Á sama tíma átti félagið eignir í erlendum félögum fyrir 106 milljónir króna.

Á meðal eigna Arks hér á landi eru hlutabréf í Eyri Invest, helsta eiganda Marel, sem bókfærð er á hálfan milljarða króna, 150 milljóna hlutur í MP banka, eignarhlutur í SF1  upp á 131 milljón og eignarhlutur upp á rúmar 100 milljónir í Icelandair Group. Þá eru í eignasafninu félög sem skráð eru á Indlandi.

Á móti eignum námu skuldir rétt rúmum 1,4 milljörðum króna. Tekið er fram í skýringum við ársreikninginn að nær allar skuldir eru við Steinunni sjálfa.