Viðskiptablaðið fjallaði í síðustu viku um þrjá af þeim vogunarsjóðum sem keyptu kröfur á íslensku bankana Glitni, Kaupþing og Landsbanka Íslands í kjölfar fjármálahrunsins 2008. Kröfur í bú bankanna námu þúsundum milljarða króna og endaði stór hluti þeirra í höndum vogunarsjóða sem keyptu þær með talsverðum afföllum.

Líkt og fram kom í síðasta Viðskiptablaði högnuðust vogunarsjóðirnir Baupost og Eton Park um tugi milljarða á viðskiptum sínum með kröfur á föllnu bankana. Báðir áttu þeir sameiginlegt að hafa losað sig við kröfur sínar löngu áður en til nauðasamninga kom, en verð á kröfum tók litlum sem engum breytingum frá og með árinu 2010. Þeir sjóðir sem keyptu kröfur sínar eftir það tímabil höfðu ekkert upp úr krafsinu og flestir þeirra sjóða sem enn áttu kröfur við nauðasamninga haustið 2015 þurftu að sætta sig við tap upp á milljarða.

Soros of seinn

Tveir menn sem báðir hafa verið kallaðir „konungar“ í fjármálageiranum af bandarískum fjölmiðlum þurftu að sætta sig við misheppnað veðmál á Ísland. Báðir eru þeir þekktir fyrir að hafa hagnast mikið á efnahagsáföllum. George Soros, 23. ríkasti maður heims samkvæmt Forbes listanum, var einn þeirra. Hann er þekktur fyrir að hafa hagnast gríðarlega er hann felldi breska pundið í frægustu gjaldmiðlaárás samtímans í september 1992. Soros eignaðist í gegnum sjóðinn Quantum Partnes kröfur á Glitni í nóvember 2014 fyrir 20 ma.kr. að nafnvirði. Við nauðasamninga átti hann kröfur upp á 125,5 ma.kr. í gegnum annað félag, QPTF LLC, og var fjórði stærsti kröfuhafinn í Glitni. M.v. 15% ávöxtunarkröfu tapaði Soros 1,8 ma.kr. á fjárfestingu sinni í Glitni.

Goðsögn eftir hrunið - græddi ekki á Íslandi

Svipaða sögu má segja af „sub-prime kóngnum“ John Paulson. Sá maður varð frægur á einni nóttu er sjóðir í hans eigu högnuðust um 15 milljarða Bandaríkjadala á hruni þarlends fjármálakerfis haustið 2008. Paulson veðjaði gegn hinum svokölluðu undirmálslánum sem hertóku bandaríska húsnæðismarkaðinn árin fyrir hrun og er sjálfur hafa fengið 3,9 milljarða dala í vasann í kaupauka vegna fjárfestinga sinna. Koma Paulson til Íslands vakti athygli fjölmiðla, en sjóður hans var fyrst skráður fyrir kröfum  Glitni í maí 2013 upp á 20 milljarða króna. Í október sama ár hafði hann bætt verulega við sig og átti kröfur upp á 51,3 ma.kr. og í nóvember 2014 átti Paulson kröfur upp á 87,5 ma.kr. en hann ákvað rétt fyrir nauðasamninga að selja allar kröfur sínar. Miðað við 15% ávöxtunarkröfu tapaði Paulson 3,3 milljörðum króna á fjárfestingu sinni í Glitni.

Líkt og fram kom eru ástæður þess að Paulson og Soros töpuðu á kröfum sínum þær að verðbreytingar urðu litlar sem engar eftir að þeir eignuðust kröfur sínar og ávöxtunin því lítil sem engin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .