Undirritaður hefur verið samningur um kortlagningu orkunotkunar og einangrun bygginga hér á landi. Samningurinn er liður í orkusparnaðarverkefni Orkustofnunar. Markmið verkefnisins er að kortleggja orkunotkun og einangrun bygginga, sérlega þeirra sem þykja hafa óeðlilega hátt hlutfall raforku til húshitunar.

Eldri hús eru oft ekki einangruð í samræmi við nútímakröfur eins og eðlilegt er og standast þar með ekki kröfur byggingarreglugerðar. Gera þarf íbúðareigendur meðvitaða um heildarkostnað vegna húshitunar, og upplýsa þá um hvernig megi á einfaldan hátt meta hvort eðlilegt eða nauðsynlegt sé að ráðast í endurbætur á húsnæði svo spara megi orku. Lagt er til að byggt verði á gögnum frá fyrra orkusparnaðarverkefni sem unnið var á árunum 1999-2000, þar sem m.a. var útbúið reiknilíkan til að meta einangrun bygginga.

Valdar verða byggingar sem skoðaðar verði sérstaklega, m.a. með notkun hitamyndavélar og viðtala við húseigendur og tæknimenn á þeim svæðum sem um ræðir. Átakið verður kynnt almenningi með umræðu í fjölmiðlum, upplýsingagjöf á netinu og útgáfu bæklinga. Haft verður samráð við hagsmunaaðila, s.s. dreifiveitur, söluaðila einangrunarefnis, glugga- og glerframleiðendur. Gerður er fyrirvari um samþykki iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis fyrir fjárveitingu til orkusparnaðarverkefna Orkustofnunar árið 2005. Allar niðurstöður verða opinberar og birtar á heimasíðu verkkaupa. Verklok eru áætluð í desember 2005.

Það eru Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, deildarstjóri Orkudeildar Orkustofnunar og Jón Sigurjónsson, yfirverkfræðingur á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins sem hafa yfirumsjón með verkefninu.