Aðstæður í efnahagslífinu eru nú slæmar eða mjög slæmar að mati 95% stjórnenda í stærstu fyrirtækjum landsins.

Þetta kemur fram í ársfjórðungslegri könnun Capacent Gallup á stöðu og horfum hjá 500 stærstu fyrirtækja landsins, en könnunin var gerð í septembermánuði og niðurstöður hennar birtar á vef Samtaka atvinnulífsins (SA) í dag.

„Mikill samdráttur fjárfestingar í atvinnulífinu endurspeglast með skýrum hætti í könnuninni,“ segir á vef SA en útlit er fyrir að fjárfesting muni dragast saman um 20% að nafnvirði á næsta ári eða um 26% að raunvirði, en í þjóðhagsáætlun er hins vegar spáð rösklega 10% magnaukningu á næsta ári.

Samkvæmt vef SA má draga niðurstöður könnunarinnar um aðstæður í efnahagslífinu saman í svonefnda vísitölu efnahagslífsins, en hún sýnir samandregið mat fyrirtækja á núverandi efnahagsaðstæðum. Sams konar vísitölur má reikna miðað við mat stjórnenda á horfum eftir sex og tólf mánuði. Til samanburðar eru á eftirfarandi mynd einnig sýndar niðurstöður um sama efni úr fyrri könnunum.

Samkvæmt þessu eru aðstæður í efnahagslífinu nú taldar afleitar líkt og í könnunum undanfarið ár. Lægsta gildi vísitölunnar er 0, þegar allir telja aðstæður verri en hæst 200, þegar allir telja þær betri. Jafnvægi er við gildið 100, þegar jafn margir telja aðstæður betri og þeir sem telja þær verri.

Sjá nánar á vef SA.