Fjárhagur heimilanna virðist almennt vera að vænkast, og þeim fjölgar sem ná að safna sparifé, samkvæmt niðurstöðu könnunar Gallup. Rúmlega 8% landsmanna safna skuldum, ríflega 10% nota sparifé til að láta enda ná saman, endar ná með naumindum saman hjá nær 29%, tæplega 42% geta safnað svolitlu sparifé og hátt í 11% geta safnað talsverðu sparifé. Staðan hefur batnað mikið frá því í júlí 2010, þegar 12% landsmanna söfnuðu skuldum, 19% náðu endum saman með notkun sparifjár, 38% náðu endum saman með naumindum, 27% söfnuðu svolitlu sparifé og 4% söfnuðu talsverðu sparifé.

Þeir sem hafa lokið háskólaprófi og þeir sem hafa hærri tekjur eru líklegri til að ná að safna sparifé en þeir sem hafa minni menntun að baki og þeir sem hafa lægri tekjur. Einnig er munur á fjárhag fólks eftir fjölskylduaðstæðum/ æviskeiðum. Fólk á lífeyrisaldri og fólk á aldrinum 35-66 ára sem býr eitt er einna líklegast til að safna skuldum. Þar á eftir koma foreldrar á aldrinum 18-45 ára, og fólk á aldrinum 18-34 ára sem býr eitt.

Loks eru tengsl milli fjárhags og þess hvar fólk stendur í stjórnmálum. Þeir sem kysu Pírata ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegri til að safna skuldum en þeir sem kysu aðra flokka, og þeir sem styðja ekki ríkisstjórnina líklegri en þeir sem styðja hana. Á móti eru kjósendur Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna líklegri til að safna sparifé en kjósendur annarra flokka.