Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, er sá aðili sem flestir vilja sjá í fyrsta sæti í forvali Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fram fer í dag.

Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem MMR vann fyrir Viðskiptablaðið.

Össur nýtur stuðnings rúmlega 19% aðspurðra en á eftir honum kemur Sigríður Ingibjörg Ingadóttir með um 13% fylgi. Þá mælist Valgerður Bjarnadóttir með um 8,5% fylgi. Athygli vekur að tæplega 60% aðspurðra segist ekki vilja neitt af þessum einstaklingum í fyrsta sæti en þetta eru þau sem gefi hafa kost á sér í til forystu í Reykjavík.

Þegar aðeins er horft til stuðningsmanna Samfylkingarinnar segjast 38% þeirra vilja sjá Össur í fyrsta sæti. Sigríður Ingibjörg fylgir þó fast á eftir með tæplega 33% fylgi en Valgerður með tæplega 10% fylgi. Um 20% stuðningsmanna Samfylkingarinnar vill ekkert þessara til forystu í Reykjavík.

Þegar þátttakendur í könnuninni eru flokkaðir niður nýtur Össur mest stuðnings í flestum hópum. Sigríður Ingibjörg nýtur þó meiri stuðnings en hann meðal kvenna, meðal þeirra sem eru yfir 50 ára og meðal lágtekjuhópa. Í öllum tilvikum, alveg sama hvort að horft sé til kyns, búsetu, menntunar, tegund starfa eða tekna segjast flestir vilja ekkert þessara til forystu í Reykjavík.

Þegar horft er til stuðnings við stjórnálaflokka nýtur Össur sem fyrr segir mest stuðnings þeirra sem styðja Samfylkinguna. Hann nýtur líka stuðnings þeirra sem segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Bjarta Framtíð en Sigríður Ingibjörg nýtur mest stuðnings þeirra sem segjast styðja Vinstri græna.

Könnunin var sem fyrr segir framkvæmd af MMR fyrir Viðskiptablaðið dagana 9. til 13. nóvember. Úrtakið var tæplega 900 manns en um 60% aðspurðra tóku afstöðu í könnuninni.