Pétur H. Blöndal, alþingismaður, er sá aðili sem flestir vilja að fái kosningu í 2. sæti í prófkjör Sjálfstæðisflokksins sem fram fer í dag. Um 35% þeirra sem segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn vilja Pétur í annað sætið.

Þetta kemur fram í könnun sem MMR var fyrir Viðskiptablaðið. Rétt er að taka fram að könnunin er ekki gerð meðal skráðra flokksmanna heldur almennings.

Spurt var „Hver eftirtalinna myndir þú helst vlija að fengi kosningu í annað sæti í prófkjörsvali Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi Alþingiskosningar?“ og svarmöguleikarnir voru Pétur H. Blöndal, Guðlaugur Þór Þórðarson, Birgir Ármannson, Illugi Gunnarsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir eða ekkert þessara.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir stundu mældist Hanna Birna með umtalsvert fylgi í sömu könnun þegar spurt var um 1. sæti listans eða um 84% meðal þeirra sem segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn. Hún mælist því aðeins um 5,5% fylgi þegar spurt er um annað sæti.  Hún keppir við Illuga í dag um 1. sætið á lista flokksins.

Þeir Pétur, Guðlaugur Þór og Birgir hafa allir óskað eftir 2. sæti í prófkjörinu í dag. Pétur mælist sem fyrr segir með um 35% fylgi meðal þeirra sem segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn ef gengið yrði til kosninga í dag. Þá mælist Guðlaugur Þór með um 23% fylgi, Illugi Gunnarsson með um 18% fylgi og Birgir Ármannsson með um 6% fylgi. Um 13% segjast ekki vilja neitt þessara.

Pétur H. Blöndal mælist einnig hæstur þegar horft er til allra þátttakenda með um 38% fylgi í 2. sæti. Þar mælist Guðlaugur Þór með tæplega 16% fylgi, Illugi með um 14%, Birgir með 6% en um 22% segist ekki vilja neitt þessara.

Könnunin var sem fyrr segir framkvæmd af MMR fyrir Viðskiptablaðið í þar síðustu viku. Úrtakið var tæplega 900 manns en um 85% aðspurðra tóku afstöðu í könnuninni.

Prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík lýkur kl 18 í dag. Þeir einir hafa þátttökurétt í því sem eru skráðir meðlimir og því  er könnunin aðeins vísbending um úrslit prófkjörsins.