Hanna Birna Kristjánsdóttir, fv. borgarstjóri, mælist með um 84% fylgi meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins þegar spurt er um oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi Alþingiskosningar.

Þetta kemur fram í könnun sem MMR var fyrir Viðskiptablaðið. Rétt er að taka fram að könnunin er ekki gerð meðal skráðra flokksmanna heldur almennings.

Spurt var „hvort eftirtalinna myndir þú helst vilja að fengi kosningu í fyrsta sæti í prófkjörsvali Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi Alþingiskosningar?“ og þátttakendum gafst færi á því að svara á milli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Illuga Gunnarssonar, þingflokksformanns, en þau tvö hafa gefið kost á sér í fyrsta sæti á lista flokksins í prófkjöri sem fram fer í dag.

Sem fyrr segir vildu um 84% þeirra sem sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn sjá Hönnu Birnu leiða listann en um 10% stuðningsmanna flokksins vildi sjá Illuga. Um 6% vilja hvorugt þeirra.

Þegar horft er til allra þátttakenda óháð stuðningi við flokka vildu um 66% sjá Hönnu Birnu, um 9% sjá Illuga og um fjórðungur hvorugt þeirra.

Eins og gefur að skilja miðað við þessar tölur mældist Hanna Birna töluvert yfir Illuga þegar horft er til kynja, aldurs, tekjudreifingar, búsetu, menntunar og stuðnings við stjórnmálaflokka.

Könnunin var sem fyrr segir framkvæmd af MMR fyrir Viðskiptablaðið í þar síðustu viku. Úrtakið var tæplega 900 manns en um 85% aðspurðra tóku afstöðu í könnuninni.

Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson
© BIG (VB MYND/BIG)

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sigraði í prófkjöri flokksins árið 2009.