Ríkur stuðningur er við það víða í Evrópu að ríkið komi fyrirtækjum og fjármálastofnunum til aðstoðar í kjölfar fjármálakreppunnar samkvæmt könnun Gallup.

Könnunin var framkvæmd í tíu Evrópuríkjum, þar á meðal Íslandi, og var meirihluti íbúa allra ríkjanna hlynntur því að ríkið kæmi fyrirtækjum til aðstoðar.

Mestur var stuðningur við aðkomu ríkisins í Lúxemborg eða 83% en minnstur í Bretlandi eða 63%. Næstminnstur var stuðningurinn á Íslandi og Írlandi eða 72%.

Að meðaltali vildi 76,2% íbúa ríkjanna tíu sjá stuðning ríkisins við viðskiptalífið en miðgildi könnunarinnar var 78%.

Þegar spurt var hvort ríkið ætti að láta viðskiptalífið leysa sín eigin vandamál voru Bretar því hlynntastir eða 33% aðspurðra. Á Íslandi voru 14% þeirrar skoðunar að ríkið ætti að láta viðskiptalífið leysa sín vandamál en meðaltalið í ríkjunum tíu var 16,7%. Ítalir vildu síst láta viðskiptalífið sjá um sinn eigin vanda. Einungis 7% Ítala sögðust þeirrar skoðunar í könnuninni.

Sjá nánar á vef Capacent.