Meirihluti landsmanna er fylgjandi olíuleit í íslenskri lögsögu samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið. Spurt var: Ert þú fylgjandi eða andvíg(ur) olíuleit í íslenskri lögsögu? Af þeim sem tóku afstöðu segjast 58% fylgjandi olíuleit en 42% segjast andvíg. Þegar öll svör eru skoðuð segjast 43% fylgjandi, 27% svara hvorki né og 31% segjast andvíg.

Nokkur munur er afstöðu kynjanna til olíuleitar. Af þeim sem tóku afstöðu segjast 63% karlmanna fylgjandi olíuleit en 37% andvíg. Til samanburðar þá segjast  51% kvenna fylgjandi en 49% andvíg.

Mesta andstaðan er hjá fólki sem er 65 ára eða eldra en af þeim sem tóku afstöðu segjast 58% andvíg olíuleit en 42% fylgjandi. Fólk í aldurshópnum 35 til 44 ára er jákvæðast gagnvart olíuleit. Um 69% þeirra segjast fylgjandi en 31% andvíg.
Þegar svörin eru skoðuð eftir búsetu kemur í ljós að 52% Reykvíkinga eru fylgjandi olíuleit en 48% andvíg. Í sveitarfélögunum fyrir utan höfuðborgarsvæðið eru 63% fylgjandi en 37% andvíg.

Skýr munu er á afstöðu eftir menntun. Um 69% fólks með grunnskólapróf er fylgjandi olíuleit en 31% andvíg. Hjá fólki með háskólapróf er niðurstaðan sú að 46% þeirra eru fylgjandi en 54% andvíg.

Fólk með fjölskyldutekjur á bilinu 1.250 til 1.499 þúsund krónur er jákvæðast gagnvart olíuleit. Um 77% þeirra segjast fylgjandi en 23% mótfallin. Mesta andstaðan er hjá fólki með fjölskyldutekjur á bilinu 550 til 799 þúsund.  Alls eru 46% þeirra fylgjandi olíuleit en 54% andvíg.

Olíuleit í uppnámi

Olíuleit í íslenskri lögsögu er í uppnám eftir að kínverska fyrirtækið CNOOC og norska fyrirtækið Petoro gáfu eftir sérleyfi sín til leitar á Drekasvæðinu. Þetta gerðu þau fyrir rúmum mánuði síðan. Eykon Energy, þriðja fyrirtækið sem átti aðild að sérleyfinu, hefur hins vegar ekki gefið eftir sinn hlut. Orkustofnun telur fyrirtækið hins vegar ekki hafa bolmagn til rannsókna og vinnslu eitt og sér og því séu forsendur fyrir þeirra sérleyfi brostnar. Því hafa forsvarsmenn Eykon mótmælt.

Skömmu áður en málið komst í uppnám lýsti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra miklum efasemdum um siðferðislegt réttmæti olíuvinnslu í lögsögu landsins.

„Mér finnst ekki siðferðislega rétt að ætla að gera sig gildandi í loftslagsmálum og setja sér metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og vera á sama tíma í olíuvinnslu,“ sagði Guðmundur Ingi í viðtali í Viðskiptablaðinu í byrjun janúar. Að öðru leyti hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna lítið blandað sér í umræðuna um olíuleit síðan áformin komust í uppnám.

Furðast sinnuleysi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, furðaði sig á sinnuleysi stjórnvalda í málinu í pistli, sem birtist í Viðskiptablaðinu 1. febrúar. "Væri ekki ráð að kanna hvort aukinn áhugi Bandaríkjamanna á norðurslóðum og breytt staða Bretlands geti opnað á nýtt samstarf? Eða er það ætlun íslenskra stjórnvalda að vera bara aðgerðalausir áhorfendur að þróun mála á norðurslóðum og vanrækja þannig grundvallarhagsmuni þjóðarinnar?" skrifaði Sigmundur Davíð.

Könnun Gallup var netkönnun, sem gerð var dagana  1. til 14. febrúar. Eins og áður sagði var þá var spurt: Ert þú fylgjandi eða andvíg(ur) olíuleit í íslenskri lögsögu? Úrtakið var 1.426 manns af landinu öllu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfshópi Gallup. Fjöldi svarenda var 819 og þátttökuhlutfallið 57,4%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .