Í könnun MMR sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið um viðhorf almennings til inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB) kemur í ljós að meirihluti landsmanna, eða um 56%, er andvígur aðild á meðan tæpur þriðjungur þjóðarinnar er hlynntur því að ganga í ESB. Tæp 15% eru hvorki fylgjandi né andvíg.

Lítill munur er á milli kynja en nokkur munur er á afstöðu fólks eftir búsetu. Þannig er um 37% þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu fylgjandi því að ganga í ESB en aðeins um 19% þeirra sem búa á landsbyggðinni. Að sama skapi er tæp 70% íbúa á landsbyggðinni á móti aðild og um 47% þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þegar litið er til menntunar eru um 40% þeirra sem lokið hafa háskólaprófi fylgjandi aðild en 45% á móti. Þá er sem fyrr mesta andstaðan við aðild á meðal bænda og sjómanna eða 88%. Enginn þeirra bænda eða sjómanna sem tóku þátt í könnuninni var fylgjandi aðild.

ESB könnun
ESB könnun
© None (None)

Stækka má myndina með því að smella á hana.


Þá er einnig töluverð andstaða meðal iðnaðarmanna eða rúm 70%. Helsti stuðningurinn við aðild liggur meðal sérfræðinga en um 43% þeirra eru fylgjandi aðild á meðan 46% eru á móti aðild. Þá eru um 38% stjórnenda fylgjandi aðild en 52% á móti.

Um 88% þeirra sem styðja Samfylkinguna styðja aðild að ESB en mesta andstaðan er meðal þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn eða 80%.

Þá eru um 70% þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn andvíg aðild og tæp 60% þeirra sem styðja VG. Könnunina gerði MMR dagana 8. – 11. mars. Um 900 manns svöruðu könnuninni.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.