Mitt Romney fengi 49% atkvæða en Barack Obama 46% atkvæða í forsetakosningum 2012 meðal skráðra kjósenda samkvæmt könnun Washington Post-ABC News . Hins vegar fengju báðir 47% meðal allra þáttakenda í könnuninni.

Mitt Romney er kaupsýslumaður og fyrrverandi ríkisstjóri í Massachusetts (2003-2007) og tók þátt í forkosningum Repúblíkanaflokksins árið 2008 en beið í lægra haldi fyrir John McCain.

Könnunin sýnir að aðrir frambjóðendur repúblíkana í forkosningunum myndu tapa fyrir Obama.  Vikmörkin í könnuninni eru 3,5%.

Bandaríkjamenn ósáttir störf Obama

Mikil óánægja er meðal kjósenda með störf Barack Obama samkvæmt könnuninni en 49% eru ósátt við störf forsetans en 47% sátt. Er það mikil breyting á skömmum tíma en eftir að Osama bin Laden var felldur skaust ánægja með störf forsetans upp í 56%.

Óánægjan er mest í efnahagsmálum en 59% kjósenda eru óánægðir með frammistöðu Obama í málaflokknum.

Aðeins 33% eru ánægðir með aðgerðir forsetans í viðureigninni við fjárlagahallann.