Sjálfstæðisflokkurinn nýtur fylgis 29% kjósenda og Framsóknarflokkurinn nýtur stuðnings 14,6% kjósenda samkvæmt skoðanakönnun MMR sem gerð var dagana 25.-28. febrúar. Fylgi Sjálfstæðisflokksins var 29,7% í könnun í miðjum febrúar og 26,3% í janúar. Fylgi Framsóknarflokksins var 15,6% í síðustu könnun og 17,0% í janúar.

Fylgi Bjartrar framtíðar mældist nú 16,4%, borið saman við 14,8% í síðustu könnun og 15,9% í janúar. Samfylkingin mældist nú með 14,0% fylgi, borið saman við 13,2% í síðustu könnun og 17,0% í janúar. Vinstri-græn mældust nú með 10,4% fylgi, borið saman við 11,5% í síðustu könnun og 11,0% í janúar. Pírataflokkurinn mældist nú með 9,3% fylgi, borið saman við 8,8% fylgi í síðustu könnun og 6,9% í janúar.

Könnunin var gerð þannig að rætt var við einstaklinga 18 ára og eldri, sem voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Svarfjöldi var 1013 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var fyrir Fréttablaðið og Stöð 2 og birt var í morgun var Sjálfstæðisflokkurinn með 26,8% fylgi og Framsóknarflokkurinn með 13,9%.