Miklum meirihluta Íslendinga þykir skattar hér á landi of háir, samkvæmt nýrri könnun sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið af Gallup. Alls sögðust 25,7% svarenda telja að skattar væru hér allt of háir og önnur 47% að þeir væru heldur of háir. Um 21,8% telja skatta á Íslandi vera hæfilega, 3,6% telja þá heldur of lága og aðeins 1,8% segja skatta vera allt of lága. Alls telja því 72,8% landsmanna skatta vera of háa, en aðeins 5,4% telja skatta of lága. Spurt var: „Þykir þér skattar á Íslandi of lágir, hæfilegir eða of háir?“

Áhugavert er að skoða mismunandi afstöðu kynjanna til þessarar spurningar, því konur eru mun líklegri til að telja skatta of háa en karlar. Samtals telja 77% kvenna skatta of háa, en 68% karla. Þá telja aðeins þrjú prósent kvenna skatta hér á landi vera of lága, en átta prósent karla eru á þessari skoðun.

Yngra fólk er líklegra en það eldra til að telja skatta of lága, þótt þessi afstaða sé ekki algeng. Í aldurshópnum 18-34 telja 10% skatta vera of lága, en í eldri aldurshópum er þetta hlutfall á bilinu 2-5%. Ekki er marktækur munur á afstöðu fólks til spurningarinnar eftir fjölskyldutekjum, en þó er hlutfall þeirra sem telja skatta of lága hæst meðal þeirra þar sem fjölskyldutekjur eru yfir 1.250.000 krónum á mánuði, eða 9%.

Nánar er fjallað um könnunina í tímaritinu Áramót, sem kemur út á morgun, 30. desember.