Donald Trump er áfram með töluvert forskot í könnunum fyrir forvalskosningar Repúblikana á næsta ári. Könnun Morning Consult sem framkvæmd var dagana 2.-4. júní sýnir fram á 56% fylgi hjá fyrrverandi forsetanum.

Ron DeSantis, ríkisstjóri í Flórída, mælist með 22% fylgi, en fylgið hans hefur dalað talsvert frá því í desember í fyrra þegar hann hafði um 14 prósentustiga forskot á Trump í könnun Wall Street Journal.

Mike Pence, fyrrum varaforseti í forsetatíð Trump, tilkynnti um framboð í vikunni. Hann mælist með 7% fylgi.

Þar á eftir koma þau Nikki Haley, Tim Scott og Vivek Ramaswamy með 3% fylgi.

Liz Cheney, dóttir Dick Cheney fyrrum varaforseta, mælist með 2% fylgi. Þá mælist Chris Christie, fyrrverandi ríkisstjóri New Jersey, einungis með 1% fylgi, en hann bauð sig fram nú í vikunni.