Jóhanna Harpa Agnarsdóttir hefur verið ráðin í starf viðskiptastjóra hjá auglýsingastofunni Kontor Reykjavík. Hlutverk hennar verður meðal annars að vinna að stefnumótun og markaðsráðgjöf fyrir ört stækkandi viðskiptavinahóp Kontor Reykjavík ásamt verkefnastjórnun og öðrum daglegum verkefnum.

Jóhanna Harpa hefur mikla reynslu af auglýsingastörfum hér á landi. Hún hóf störf árið 2014 hjá fyrirtækinu Janúar sem sameinaðist síðar PIPAR/TBWA. Hún starfaði þar í rúm tvö ár og voru helstu viðskiptavinir hennar þar Ölgerðin og Dominos.

Haustið 2016 hóf Jóhanna Harpa svo störf hjá Íslensku auglýsingastofunni þar sem hún starfaði í fjögur ár og meginhluta þess tíma fyrir Icelandair, í innlendum og erlendum markaðsverkefnum félagsins.

Jóhanna Harpa er með meistaragráðu í markaðs- og samskiptastjórnun (e. Marketing Communication Management) frá Copenhagen Business School. Hún lauk BS-gráðu í Viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2005.

„Það er frábært að fá til starfa einn reynslumesta viðskiptastjóra landsins. Hanna Harpa hefur tekist á við stór og krefjandi verkefni og náð miklum árangri á sínum ferli,“ segir Sigrún Gylfadóttir annar eigandi Kontor Reykjavík.

„Kontor Reykjavík hefur stækkað ört síðastliðin ár og viðskiptavinum fjölgað. Það er mikill fengur fyrir okkur og viðskiptavini okkar að fá jafn reynda markaðsmanneskju og hana Hönnu Hörpu í okkar lið.“

Auglýsingastofan Kontor Reykjavík var stofnuð í lok árs 2014 af hjónunum Sigrúnu Gylfadóttur og Alex Jónssyni sem eru með áratuga reynslu af íslenskum auglýsingamarkaði. Meðal viðskiptavina Kontor Reykjavík eru Kringlan, Alvogen, Men&Mice, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Akta sjóðir, Íslensk erfðagreining, Hugverkastofan og Farmers Market.

Á þessum stutta tíma frá stofnun hefur stofan hlotið fjölda verðlauna að því er segir í fréttatilkynningu, og þar á meðal unnið til fimm alþjóðlegra verðlauna fyrir herferðir sínar og má þar nefna virtu Epica verðlaunin fyrir Alvogen, Brand Impact Awards fyrir Kringluna og verðlaun Art Dirctors Club of Europe fyrir Amnesty International.