Í tengslum við könnun á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna árið 2006 var gerð úttekt úr launavinnslukerfi ríkisins á fjölda ríkisstarfsmanna. Fjöldi starfsmanna 1. október 2006 var um 21.600 í 19.600 stöðugildum.

Konur eru í talsverðum meirihluta eða 63% og hefur þeim fjölgað talsvert frá 1998 þegar þær voru 54% hópsins, að því er fram kemur í vefriti fjármálaráðuneytisins. Ekki er jafnmikill munur á kynjunum í fjölda stöðugilda en þar eru konur 61% hópsins.

Það skýrist að mestu af því að karlar eru að jafnaði í hærra starfshlutfalli en konur, í um 87% starfi að meðaltali, en konur í um 78% starfi.

Konur eru í miklum meirihluta hjá heilbrigðisstofnunum en þar eru karlar aðeins tæplega fimmtungur starfsmannahópsins.

Karlar eru hvergi í jafnafgerandi meirihluta og konur en hæst er hlutfall þeirra hjá stofnunum atvinnu- og samgöngumálaráðuneyta. Meðalaldur ríkisstarfsmanna er 45,4 ár. Konur eru aðeins yngri með tæplega 45 ára meðalaldur en karlar eru ríflega 46 ára gamlir.

Yngstur er starfsmannahópurinn hjá stofnunum félags- og lýðheilsumála en hæstur meðalaldur er hjá stofnunum atvinnumálaráðuneyta, umhverfis-, skipulags- og samgöngumála.

"Það vekur athygli," segir í vefritinu, "að konum í stjórnendastöðum hefur fjölgað frá árinu 1998. Þá voru konur 40% stjórnenda með mannaforráð ef frá eru taldir forstöðumenn stofnana. Nú eru konur tæpur helmingur stjórnenda með mannaforráð, eða 48%.