Hærra hlutfall kvenna og íbúa höfuðborgarinnar, og minna hlutfall innflytjenda starfa í menningargreinum samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands frá síðasta ári. Hærra hlutfall þeirra sem starfa við menningu eru sjálfstætt starfandi eða nærri fjórðungur meðan almennt eru þeir rétt rúmlega 10 af hundraði starfandi á landinu.

Í heildina störfuðu 15.500 manns við menningu, sem er 7,7% af heildarfjölda þeirra sem eru starfandi, árið 2019 sem er sama hlutfall og árið áður. Þar af störfuðu 13 þúsund við menningarstörf beint, en samkvæmt annarri flokkun störfuðu 5.800 manns í atvinnugreinum menningar, eða 3% heildarfjöldans, þar af 2.600 við önnur störf en bein menningarstörf.

Af þeim sem starfa við menningu störfuðu flestir í skapandi listum og afþreyingu, eða 15,2% hópsins, en þar á eftir koma starfsmenn safna og önnur menningarstarfsemi með 14,5% hópsins og loks framleiðsla á kvikmyndum, hljóðupptaka og tónlistarútgáfa en þar störfuðu 11,9% þeirra sem starfa í menningu.

Konur voru í meirihluta þeirra sem störfuðu við menningu, eða 59,4% heildarfjöldans, en í öðrum atvinnugreinum og störfum eru konur 45,1% heildarfjöldans. Hlutfall sjálfstætt starfandi við menningu er 24,4% á móti 10,6% af öllum starfandi.

Mun lægra hlutfall á landsbyggðinni og meðal innflytjenda í menningu

Eins og áður segir störfuðu 3% heildarfjöldans á Íslandi í atvinnugreinum menningar samkvæmt þeirri flokkun, en þar af voru einungis 18,5% búsett utan höfuðborgarsvæðisins samanborið við 36,9% í öðrum atvinnugreinum. Þannig fór hlutfallið í 3,7% starfandi á höfuðborgarsvæðinu, en það hlutfall var lægst á Suðurnesjum eða 0,9% heildarfjölda starfandi þar.

Jafnframt var hlutfall innflytjenda meðal þeirra sem starfa í atvinnugreinum menningar mun lægra en í öðrum atvinnugreinum, eða 9,1% samanborið við 19,6%. Hlutfallslega hefur þeim líka fjölgað meira í öðrum atvinnugreinum frá árinu 2015, eða um 61,3% samanborið við 41,2% fjölgun í atvinnugreinum menningar.