Undir lok síðasta árs voru konur 31% stjórnarmanna og karlar 69% í fyrirtækjum í 287 fyrirtækjum sem lög um kynjakvóta ná yfir. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri úttekt Creditinfo sem unnin var fyrir Samtök atvinnulífsins (SA). Þetta er 11 prósentustigum fleiri konur en árið 2009 en þá voru 20% kvenna í stjórnum fyrirtæja með a.m.k. 50 heilsárstarfsmenn.

SA segir um málið á vef sínum í dag að ákvæðið um kynjakvóta í stjórnum nái til hlutafélaga og einkahlutafélaga þar sem starfa 50 starfsmenn eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli. Í þriggja manna stjórnum skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal hlutfall hvors kyns ekki vera lægra en 40%. Ákvæðið öðlaðist gildi 1. september 2013.

SA segir á vef sínum:

„Í maí 2009 skrifuðu Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri og Viðskiptaráð undir samstarfssamning um að fjölga konum í forystu íslensks atvinnulífs. Markmið var sett um að hlutfall hvors kyns yrði ekki undir 40% í lok árs 2013. Í raun reyndi aldrei á framkvæmd samkomulagsins því þegar á sama ári var ljóst að vilji var fyrir því á Alþingi að setja kynjakvóta á stjórnir fyrirtækja, óháð því hvort atvinnulífið sjálft gæti jafnað kynjahlutföll án opinberrar íhlutunar með því að hvetja fyrirtæki til að auka fjölbreytni í stjórnum fyrirtækja. Í mars 2010 samþykkti Alþingi svo ákvæði um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja með breytingu á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Krafa löggjafans til atvinnulífsins var skýr, en með lagasetningunni færðu stjórnvöld ábyrgðina af atvinnulífinu til sín varðandi kynningu og innleiðingu lagaákvæðisins.“