„Það er einu sinni þannig að konur geta átt fyrirtæki án þess að karlmenn komi þar nærri," segir Ingibjörg Pálmadóttir í bréfi til DV í dag vegna skrifa blaðsins um fasteignaviðskipti félaga sem tengjast henni. Ingibjörg er ósátt við að gefið sé í skyn að verið sé að „koma eignum undan kröfuhöfum" í fréttinni og að Jón Ásgeir Jóhannesson eigi í félögunum.

Í frétt DV segir meðal annars að eignarhaldsfélagið Hverfiseignir, sem er í eigu 365 miðla þar sem Ingibjörg er stjórnarformaður, hafi keypt árið 2010 þrjár fasteignir út úr félaginu IP Studium í fyrra.

Ingibjörg segir í bréfi til DV að IP Studium hafi nýtt fasteignir „í sinni eigu til hlutafjáraukningar í 365 miðlum ehf. á síðasta ári. 365 miðlar ehf. eiga og reka fasteignirnar í dag í dótturfélagi sínu, Hverfiseignum ehf. Hverfiseignir eru hluti af samstæðuuppgjöri 365 miðla ehf."

Jón Ásgeir aldrei átt félögin

„IP Studium er í eigu félaga minna, þ.m.t. Eignarhaldsfélagsins ISP ehf. Í blaðinu í dag er ýjað að því að þar hafi einnig verið um undanskot eigna að ræða. Það er alrangt. Þá hafa þessi félög aldrei verið í eigu Jóns Ásgeirs eins og ýjað er að á forsíðu blaðsins. það er einu sinni þannig að konur geta átt fyrirtæki án þess að karlmenn komi þar nærri,“ skrifar Ingibjörg Pálmadóttir.