Ein af leiðunum sem hægt er að fara til að fjölga konum í tæknigeiranum hljómar einföld, en Caroline Drucker heldur að hún geti haft meiri áhrif en sumar flóknari hugmyndir. Í grein sem hún skrifar í tímaritið Wired segir hún að konur eigi að hætta að tala um sig og kynsystur sínar sem „stelpur“. Ef allar konur í þessu pylsupartíi sem tæknigeirinn er myndu hreinlega kalla sig „konur“ myndi það leiða til mikillar fjölgunar kvenna hjá tæknifyrirtækjum.

„Stelpur eru ungar, stelpur eru sætar, stelpur eru hressar, en það sem mestu máli skiptir þá stafar engum hætta af stelpum. Rannsóknir sýna að konur grafa oft undan sér á vinnustöðum með því að byrja setningar á því að segja „ég er kannski enginn sérfræðingur...“,“ segir hún.

Drucker segir að orð hafi mikil áhrif. Það hvernig fólk talar geti haft alveg jafnmikil áhrif og aðrir þættir í samskiptum við annað fólk. Það geti verið að það að kalla sjálfa sig „stelpu“ geri það að verkum að fólki finnist auðveldara að nálgast viðkomandi konu, en það gefi ekki beinlýnis til kynna að taka eigi konuna alvarlega.

Hún segir að haldnir séu margir atburðir fyrir „stelpur í tæknigeiranum“. Þeir séu vissulega mikilvægir og að þeir auðveldi konum að hittast og skiptast á upplýsingum og þekkingu. „Aftur á móti skil ég ekki af hverju það þarf að nota orðið „stelpa“ þegar atburðirnir eru greinilega fyrir konur“

Drucker gerir ekki lítið úr öðrum leiðum sem færar eru til að koma fleiri konum að í tæknigeiranum. Tungumálið og það hvernig konur tala um sjálfar sig er alls ekki töfralausn, en þetta sé eitthvað sem hafa beri í huga.