Í Egyptalandi er mest troðið á kvenréttindum af öllum tuttugu og tveimur Arabalöndunum samkvæmt rannsókn sem gerð var af Thomson Reuters Foundation. Þetta kemur fram á BBC í dag .

Í rannsókninni kom fram að há tíðni kynferðislegrar áreitni, umskurðar kvenna og aukin völd harðlínu íslamista eigi þátt í því að Egyptaland skorar lægst í réttindum kvenna.

Í rannsókninni, sem er nú gerð í þriðja skiptið, var talað við 330 sérfræðinga í tuttugu og einu arabaríki, þar á meðal Sýrlandi. Írak lendir í öðru sæti og þar á eftir koma Sádí-Arabía, Sýrland og Jemen.

Sérfræðingarnir sem tóku þátt í rannsókninni áttu að líta á þætti eins og ofbeldi gegn konum, meðferð á konum innan fjölskyldunnar og þátttöku kvenna í stjórnmálum og vinnumarkaði.

Aðrar ástæður, sem nefndar eru fyrir því að Egyptaland skorar lægst, eru lög sem mismuna konum og að mansal hefur aukist. Zahra Radwan, talskona Global Fund for Women, segir að fyrir utan Kairó séu heilu þorpin sem snúast eingöngu um að selja konur í ánauð og hjónabönd.

Þrátt fyrir alla þessa þætti er það þó kynferðislega áreitnin sem kemur Egyptalandi í botnsætið en í könnun á vegum Sameinuðu þjóðanna kemur fram 99,3% kvenna og stúlkna hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni í landinu.