*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 18. júní 2017 09:02

Konur hlynntari jafnlaunavottun

Mikill munur er á afstöðu kynjanna til jafnlaunvottunar en 74% kvenna eru hlynnt henni samanborið við 50% karla.

Trausti Hafliðason

Frumvarp Þorsteins Víglundssonar félagsmálaráðherra um jafnlaunavottun var samþykkt á Alþingi í byrjun mánaðarins. Lögin taka gildi 1. janúar næstkomandi en samkvæmt þeim eru fyrirtæki og stofnanir, sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri, skyldug til að greiða kynjunum jafnhá laun. Þurfa fyrirtæki og stofnanir að undirgangast sérstaka úttekt á jafnlaunakerfinu og ef þau standast hana fá þau vottunarskírteini. Þessa vottun þurfa fyrirtækin síðan að endurnýja á þriggja ára fresti.

Samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið eru ríflega 61% landsmanna hlynnt lögfestingu á skyldu til jafnlaunavottunar meðal fyrirtækja, sem hafa 25 eða fleiri starfsmenn. Tæplega 16% segjast vera andvíg lögfestingu á skyldu til jafnlaunavottunar og rúmlega 23% segjast hvorki vera hlynnt né andvíg jafnlaunavottun.

Töluvert mikill munur er á afstöðu kynjanna til jafnlaunavottunar. Um 74% kvenna eru hlynnt lögfestingu hennar en 50% karla. Um 25% karla sögðust andvígir jafnlaunavottun og 26% þeirra sögðust hvorki vera hlynntir né andvígir henni. Um 3% kvenna sögðust andvíg jafnlaunavottun og 21% svöruðu hvorki né. Ungar konur, á aldrinum 18 til 24 ára, eru sérstaklega jákvæðar gagnvart jafnlaunavottun en 87% þeirra sögðust hlynntar vottuninni.

Marktækur munur var á svörum eftir menntun. Um 72% fólks með háskólapróf sagðist vera hlynnt lögfestingu jafnlaunavottunar samanborið við 48% fólks með grunnskólapróf og 59% fólks með framhaldsskólapróf.

Framkvæmd könnunarinnar

Könnunin Gallup var netkönnun, sem gerð var á tímabilinu 1. til 8. júní. Úrtakið var 1.444 manns af landinu öllu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfshópi Gallup. Alls tóku 835 þátt í könnuninni, sem þýðir að þátttökuhlutfallið var 57,8%. Alls tóku 88,4% afstöðu til spurningarinnar: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) lögfestingu á skyldu jafnlaunavottunar meðal fyrirtækja með 25 eða fleiri starfsmenn?

Nánar má lesa um málið í sérblaðinu Áhrifakonur. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Jafnlaunavottun
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is