Ríkisstjórnarflokkarnir þrír bættu við sig tveimur þingmönnum í kosningunum í gær samanborið við síðustu kosningar. Ótvíræðir sigurvegarar kosninganna eru Framsóknarflokkur og Flokkur fólksins. Konur verða í fyrsta sinn í meirihluta þingmanna, 33 þingmenn af 63.

Sjálfstæðisflokkurinn hélt sínum þingmannafjölda og verður með sextán þingmenn. Nokkrir nýir þingmenn koma aftur á móti inn í þingflokkinn.

Framsóknarflokkurinn bætir aftur á móti við sig fimm þingmönnum, fer úr átta í þrettán. Í tveimur kjördæmum af sex, það er norðvestur og norðaustur, er flokkurinn stærstur allra. Vinstri græn fá átta þingmenn en fengu ellefu síðast. Aftur á móti hafði fækkað um tvo í þingflokknum fyrir kosningar.

Stærstur stjórnarandstöðuflokkanna er Samfylkingin með 9,9% og sex þingmenn. Flokkurinn tapar einum þingmanni frá síðustu kosningum. Flokkur fólksins, sem samkvæmt könnunum var tæpur á því að ná inn manni, fékk aftur á móti 8,8% og kjördæmakjörinn mann í öllum kjördæmum.

Píratar halda í horfinu og fá sex þingmenn. Þar af eru þrír þeirra í Reykjavíkurkjördæmi norður en flokkurinn fær báða jöfnunarþingmennina í því kjördæmi. Sjálfstæðisflokkinn hefði vantað tæplega 140 atkvæði til viðbótar til að ná að ýta þeim síðari út.

Þingflokkur Viðreisnar stækkar um einn, heldur sínum mönnum í öllum kjördæmum en bætir við sig einum jöfnunarþingmanni í norðvestur. Miðflokkurinn hrynur aftur á móti í fylgi, endaði með 5,4%. Flokkurinn náði tveimur kjördæmakjörnum mönnum inn og fær einn jöfnunarmann.

Sósíalistar fengu 4,1%, ná ekki inn jöfnunarmönnum og eru með engan kjördæmakjörinn. Ábyrg framtíð og Frjálslyndi lýðræðislokkurinn náðu ekki þúsund atkvæðum samanlagt.