Nemendum á Íslandi hefur fjölgað um 1.776 frá árinu áður, eða um 1,7% samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Nær þetta yfir nemendur á öllum skólastigum. Frá árinu 1997 hefur nemendum á fjölgað um 20,8%. Hlutur kvenna í fjölgun nemenda á síðastliðnum 10 árum er áberandi.

Konum fjölgaði um 124,4% en körlum um 93,7%. Kynjahlutfallið er mjög jafnt á framhaldsskólastigi en ofan framhaldsskólastigs eru konur um 62,2% nemenda.

Mikill meirihluti 16 ára ungmenna er í skóla, eða 93% og hefur sú tala ekkert breyst frá árinu áður. Skólasókn stúlkna er 94% á móti 92% hjá piltum. Munur er á skólasókn 16 ára ungmenna eftir landshlutum. Meðal pilta á Suðurnesjum er lægst skólasókn á landinu. Best er skólasóknin á Vesturlandi.

Hagstofan flokkar nú nemendur með öðrum hætti en áður. Notaðir eru alþjóðlegir staðlar. Nú er t.d. talað um framhaldsstig, viðbótarstig, háskólastig og doktorsstig. Munar mestu um þann gríðarlega vöxt sem verið hefur á skólastigum ofan framhaldsskólastigs.

Í tilkynningu Hagstofunnar segir að fjöldi nemenda á viðbótarstigi, háskólastigi og doktorsstigi hafi ríflega tvöfalldast.

Háskóli Íslands hefur fundið fyrir þessari fjölgun. Að sögn Þórðar Kristinssonar, sviðsstjóra kennslusviðs Háskóla Íslands, er aukin fjölbreytni í háskólanámi og mikilvægi þess ástæða fjölgunar nemenda við HÍ.

„Ljóst er að kröfur samfélagsins kalla á aukna menntun - og með háskólanámi tryggir fólk betur stöðu sína og möguleika til að takast á við lífið og tilveruna," segir Þórður.

Innan Háskóla Íslands er fjölgun hlutfallslega mest í framhaldsnámi og helst það í hendur við auknar áherslur háskólans á framhaldsnám.

„Ein skýring þess að konur séu í meirihluta háskólanema kann að vera sú að karlar eigi auðveldara með að fá betur launuð störf en konur, og einnig að karlar eigi auðveldara en konur með að fá vel launað starf án háskólamenntunar, og telji því ekki jafn mikilvægt og konur að mennta sig, " segir Þórður og bætir við að mikilvægt sé að jafnvægi náist milli kynjanna, því jafnvægi sé ávallt af hinu góða. Það er hagur alls samfélagsins að reyna að jafna þátttöku beggja kynja þegar kemur að háskólanámi.

Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, tekur í sama streng varðandi fjölgun nemenda.

„Ástæður fjölgunarinnar skýrast líka af auknu framboði háskólanna á námi, einkum og sér í lagi á meistarastigi. Í boði er sérhæft nám á meistarastigi sem ekki var í boði áður" segir Svafa.