Íslandsbanki afhenti Síldarminjasafninu á Siglufirði hið stóra og þekkta málverk „Konur í síldarvinnu“ í gær. Myndin er eftir Gunnlaug Blöndal og hefur verið eitt af kennileitum á Siglufirði í háttnær 70 ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka.

„Myndin hefur prýtt húsakynni Útvegsbankans síðar Íslandsbanka og síðast Sparisjóðs Siglufjarðar. Hún er nú í Síldarminjasafninu en til stendur að setja hana upp í endurnýjuðu Salthúsi á Siglufirði á næsta ári,“ segir í fréttatilkynningu frá bankanum.

Sýnir mikilvægi kvenna

Haft er eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að hún telji myndina af síldarstúlkum Gunnlaugs Blöndal einstaka mynd vegna þess að hún sýni mikilvægi kvenna í samfélaginu á þeim tíma þegar mikið gekk á í bænum. „Myndin hefur verið sýnd víða um heim og við getum verið stolt af því að síldarstúlkurnar hafi ferðast um heiminn og hlotið verðskuldaða athygli. Með þessari gjöf okkar til Síldarminjasafnsins erum við glöð að færa síldarstúlkurnar aftur til Siglufjarðar, það sem þær eiga heima,“ tekur Birna einnig fram.

Illugi Gunnarsson bætir við að mynd Gunnlaugs Blöndals skipi sess í huga fjölmargra Siglfirðinga. „Það er einkar ánægjulegt að Íslandsbanki sýni þann stórhug og skilning sem birtist í þeirri ákvörðun að afhenda Síldarminjasafninu myndina til eignar. Þar með er myndin komin heim og mun gleðja alla þá sem gera sér ferð á safnið. Ég vil því þakka stjórnendum Íslandsbanka og þá einkum Birnu Einarsdóttur fyrir þessa ákvörðun og jafnframt óska Síldarminjasafninu til hamingju með myndina,“ er haft eftir Illuga.