Konur sitja í 17,3% af stjórnarsætum fyrirtækja í bresku FTSE 100 hlutabréfavísitölunni, að því er segir í frétt Financial Times. Þetta er aukning frá árinu á undan, þegar hlutfallið var 15,6%, en töluvert frá opinberum markmiðum. Hér á Íslandi þurfa fyrirtæki að tryggja það að hlutfall annars kyns sé ekki undir 40% fyrir september í ár.

Fyrir tveimur árum mælti nefnd á vegum bresku ríkisstjórnarinnar með því að hlutfallið færi upp í 25% fyrir árið 2015, þannig að enn eru tvö ár til stefnu.

Viðskiptaráðherra Bretlands, Vince Cable, sagðist heldur vilja sjá fyrirtækin ná þessu markmiði sjálf heldur en að binda þessi hlutföll í lög, en hann væri tilbúinn að grípa til lagasetningar ef hægja tæki á framförunum.

Í FTSE 250 vísitölunni eru 73% fyrirtækja með að minnsta kosti eina konu í stjórn, en hlutfallið var 54% í fyrra.