*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Fjölmiðlapistlar 28. júlí 2018 13:43

Konur og menn

Oft eru málfræðilegar ástæður fyrir því, við tölum um iðulega um menn án þess að gera greinarmun á kynjum (konur eru líka menn), og vísum þá til þeirra í karlkyni.

Andrés Magnússon
Ríkisútvarpið sagði frétt í kjölfar miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu ljósmæðra við ríkið. Fyrirsögnin var „Enginn dregið uppsögn sína til baka á LSH“.
Aðrir ljósmyndarar

Ríkisútvarpið sagði frétt í kjölfar miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu ljósmæðra við ríkið. Fyrirsögnin var „Enginn dregið uppsögn sína til baka á LSH“. Við þetta gerðu ýmsir athugasemdir, einkum konur, sem töldu fráleitt að segja „enginn“, þar hafði vitanlega átt að standa „engin“, þar sem umræddir starfsmenn væru allir sem einn konur.

Vitanlega má bera fyrir sig íslenska málvenju í þessu efni, að sagt sé „enginn“ án þess að þar sé vísað til kyns viðkomandi. Varla leikur vafi á að það er skýringin.

Hins vegar er athugasemdin fyllilega réttmæt, þó ekki væri nema frá hinu almenna fréttasjónarmiði. Þarna ræddi einungis um konur og því felst fyllri og nákvæmari frétt í því að hafa fyrirsögnina „Engin dregið uppsögn sína til baka á LSH“.

Það var enda svo að Ríkisútvarpið leiðrétti fyrirsögnina í þá veru og gott hjá fréttastofunni að vera vakandi fyrir ábendingum af því tagi.

Svo er hitt, sem fjölmiðlafólk má vel hafa hugfast, en það er að í daglegu tali tíðkast oft að nota karlkyn í ýmsu samhengi, nánast sjálfgefið, án þess að það eigi alltaf við. Oft eru málfræðilegar ástæður fyrir því, við tölum um iðulega um menn án þess að gera greinarmun á kynjum (konur eru líka menn), og vísum þá til þeirra í karlkyni, en í ýmsum orðasamböndum og setningum er orðið, sem kynið vísar til undanskilið. Það á ekki síst við í fyrirsögnum, sem oft eru mjög stuttaralegar. Málið er hins vegar í sífelldri þróun líkt og samfélagið og sjálfsagt og rétt að taka tillit til þess. Sérstaklega auðvitað ef orðalagið fer í taugarnar á drjúgum hópi lesenda og það að óþörfu.

Þar með er ekki sagt að blaða- og fréttamenn eigi að dauðhreinsa málið af öllum ummerkjum málfræðilegs kyns, þeir eiga eftir sem áður að velja orðin af kostgæfni og láta þau þjóna frásögninni og skilningi fjölmiðlaneytenda. En þar sem það á við, sérstaklega ef það gefur frásögninni skýrari merkingu, á vitaskuld að leggja sig fram um það.

***

Í Knúzi, femínísku vefriti, var um daginn fjallað um framboð Karlalistans, Samtök umgengnisforeldra og Samtök meðlagsgreiðenda, sem eru náskyld samtök. Í greininni var því haldið fram að þau væru nánast eins manns framtak, sem sækti styrki til þess að úthrópa konur og sér í lagi femínista.

Það fellur utan umfjöllunarefnis þessa dálks að fjalla um það efni sérstaklega, en hins vegar spannst nokkur umræða um það á netinu meðal áhugafólks um fjölmiðlun, hvort fjölmiðlar væru nægilega duglegir að rannsaka samtök og þrýstihópa af ýmsu tagi, áður en lagt væri rúm og tími undir fréttafrásagnir af málstað þeirra.

Þetta er gild spurning frá ýmsum hliðum. Þegar einhver gefur sig fram við fjölmiðla sem talsmaður einhverra er rétt að ganga úr skugga um að það sé rétt. Og þess finnast vissulega dæmi að einhver „samtök“ sendi frá sér reglulegar yfirlýsingar, en eru í raun aðeins einn maður með þráhyggju og faxtæki. En svo eru ýmis samtök, sum með mjög afmarkað starfssvið og takmarkaðan félagafjölda, sem eigi að síður eru góð og gild áhugamannafélög. Og þá vandast í því ef fjölmiðlar eiga að fara að leggja mat á það hversu mikið umboðið er í raun og veru.

Alkunna er að ýmis áhugamál eða áhugaefni kunna að eiga sér mikinn hljómgrunn án þess að margir kjósi að starfa í félagsskap þar um. Í öðrum tilvikum eru starfandi fleiri en einn hópur að viðkomandi málefni, félög geta verið bundin við landfræðilegar einingar, komið til klofnings og svo framvegis. Það segir sig sjálft að það er óvinnandi vegur fyrir fjölmiðla að reyna að meta það hver hafi þá mest til síns máls. Og raunar algerlega óviðeigandi að þeir legðust í slíkar mælingar. Ættu fjölmiðlar t.d. að leiða hjá sér erindi Samtaka um bíllausan lífsstíl af því að Félag íslenskra bifreiðaeiganda er margfalt.

***

Um daginn átti sér stað banaslys skammt frá Þingvöllum, sem sagt var frá í fréttum skömmu síðar, og staðsetningin tilgreind eins og best mátti gera í texta. Hins vegar verður að játast að það er til nokkurs ætlast af hinum almenna lesanda að átta sig á því hvar slysið átti sér stað af því einu að lesa um örnefni og bæjarheiti þar í sveitinni.

Það á við nú sem áður, að fréttir eiga að greina frá atburðum af nákvæmni en án málalenginga, en þess verður líka að gæta að í þeim felist ekki óhæfilegar kröfur til kunnugleika eða þekkingar lesenda.

Þarna hefði verið rétt að skjóta inn litlu korti til þess að sýna hvar banaslysið varð, á hvaða vegi og með afstöðu til helstu kennileita, sem ætla má að almenningur þekki. Fjölmiðlunum var vissulega ýmis vörn í máli. Það var ekki beðið með að segja frá þessari frétt, en það var helgi og ekki víst að kortagerðamaður væri á vakt.

Eftir sem áður má vel ætlast til þess að atburðir sem þessir séu vel staðgreindir. Til þess eru nú til ýmis góð tæki, sem áður voru ekki tiltæk, kortahugbúnaður sérstaklega gerður fyrir fjölmiðla, sem í senn er ódýr og auðveldur í notkun.

Það er hið sérstaka hlutverk fjölmiðla að greina frá fréttum í stuttu og skýru máli (og myndum), þeir eiga ekki að skilja eftir það verkefni hjá lesendum að þeir þurfi að grafast fyrir um grundvallaratriði málsins eins og hvar fréttin átti sér stað.

***

Morgunblaðið birti á mánudag magnaða forsíðumynd eftir Árna Sæberg af göngu kirkjunnar þjóna til vígslubiskupsvígslu í Skálholti. Margir hafa orðið til þess að láta í ljós hrifningu af myndinni, lesið eitt og annað í hana að smekk, en lokið á hana lofsorði sem fagurt verk, sem lofi meistarann. Árna altso.

Myndin leiðir hins vegar vel í ljós margslungið hlutverk fjölmiðla og þess efnis, sem þar birtist. Þó þarna hafi vissulega rætt um stóratburð innan kirkjunnar var þar ekki um stórfrétt að ræða fyrir allan almenning. En myndin átti erindi við hinn almenna lesanda af ýmsum ástæðum, fyrst og fremst af því að hún er gott listaverk. Það kæmi beinlínis á óvart ef þessi mynd vinnur ekki til verðlauna áður en langt um líður.