Heildarhlutfall kvenna í stjórnum allra lífeyrissjóða er nú samtals um 44,4%, en þann 1. september næstkomandi taka gildi lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns sé að lágmarki 40% í stjórnum allra lífeyrissjóða. Kemur þetta fram í tilkynningu frá KPMG.

KPMG hefur undanfarin ár tekið saman upplýsingar um kynjahlutfall stjórnarmanna hjá lífeyrissjóðum. Samanburðurinn leiðir í ljós að hlutfall kvenna hefur aukist um 18,4% prósentustig frá árinu 2010.

Þegar bornar eru saman upplýsingar frá 1. september 2012 og núverandi staða má sjá að töluverðar breytingar hafa átt sér stað í stjórnum lífeyrissjóða. Í fyrra voru 42% lífeyrissjóða með stjórnir í samræmi við löggjöfina samanborið við 73% lífeyrissjóða nú þegar einungis fimm dagar eru í gildistöku laganna. Enn eru stjórnir sjö lífeyrissjóða ekki í samræmi við löggjöfina þar sem einn sjóð vantar tvær konur í stjórnina til að uppfylli skilyrði laganna, fjóra sjóði vantar eina konu í stjórnina og tvo sjóði vantar einn karl í stjórnina.

Í hverjum lífeyrissjóði þarf hlutfall hvors kyns að vera að lágmarki 40% þegar stjórnarmenn eru fjórir eða fleiri og ef stjórnarmenn eru þrír eða færri þarf hvort kyn að eiga fulltrúa í stjórn. Fjöldi stjórnarmanna er slétt tala hjá 14 af 26 lífeyrissjóðum (t.d. 6 eða 8 stjórnarmenn) sem leiðir til þess að hlutfall hvors kyns þarf að vera 50% í þeim sjóðum (má ekki fara undir 40%). Það leiðir til þess að þegar allir lífeyrissjóðir eru með stjórnir í samræmi við löggjöfina þá þarf heildarhlutfall kvenna í stjórnum lífeyrissjóða að vera a.m.k. 45,8%.