Hlutfall kvenna meðal íslenskra háskólanema er hærri hér en í Evrópu, meðalaldurinn er hærri en á Norðurlöndunum og í löndum Evrópu almennt, þeir gera frekar hlé á námi á milli framhaldsskóla og háskóla, þeir vinna mikið og hlutfall þeirra sem eru með fötlun er með því mesta sem gerist í Evrópu.

Þetta kemur fram í samanburðarskýrslu á vegum Eurostudent sem gerð var meðal 320 þúsund háskólanema í 28 löndum evrópska háskólasvæðisins, EHEA. Á Íslandi tóku tæplega 2 þúsund háskólanemar þátt í könnuninni og var hún unnin af mennta- og menningarmálaráðuneytinu í samstarfi við Landsamtök íslenskra stúdenta, Rannsóknarmiðstöð Íslands og HÍ. Annaðist Maskína framkvæmdina hér á landi.

Stunda meira sjálfstætt nám, auk vinnu, en aðrir

Íslenskir nemendur verja meira en 50 stundum á viku í launaðri vinnu og nám, sem er meira en í nokkru öðru landi Evrópu. Mestu munar þó um að nemar á Íslandi verja miklum tíma í sjálfstætt nám, utan hins skipulagða náms sem er jafnmikið og annars staðar.

Hér líkt og annars staðar í Evrópu hefur menntun foreldra mikil áhrif á fjárhagslega og félagslega stöðu háskólanema. Þeir sem eiga menntaða foreldra hefja nám fyrr en munurinn á aldri þeirra er áberandi mikill hér á landi eftir menntun foreldra.

Meðalaldur þeirra nemenda sem eiga háskólamenntaða foreldra er 26,8 ár en þeirra sem eiga foreldra án háskólaprófs er 32,9 ár. Í Evrópu í heildina er meðalaldurinn annars vegar 24,2 ár og hins vegar 25,9 ár. Þá eru þeir jafnframt mun líklegri til að stefna á framhaldsnám erlendis ef þeir eiga háskólamenntaða foreldra.

Samt sem áður eru íslenskir nemendur áhugasamari um framhaldsnám erlendis en flestir nemar í Evrópu, og skipar Ísland þar annað sætið yfir lönd yfir það hve áhugasamir nemendur eru um það.

Hæst hlutfall nemenda yfir þrítugt

Meðalaldur íslenskra háskólanema er um 29,7 ára, meðan á Norðurlöndunum er hann 27,8 ár og í hinum Evrópulöndunum er hann um 25 ár. Er hlutfall nemenda yfir þrítugt hæst hér á landi, en jafnframt átti um þriðjungur nemenda eitt barn eða fleiri sem er einnig hæsta hlutfallið meðal þátttökulandanna. 41,2% af yngstu börnum háskólanema á Íslandi eru undir þriggja ára aldri.

Nærri 63% háskólanema á Íslandi eru konur en meðaltalið í Evrópu almennt er 56%. Fleiri Íslendingar hafa öðlast starfsreynslu við upphaf háskólagöngu, eða 88% hér heldur en í Evrópu almennt þar sem hlutfallið er 53%.

Hlutfall nemenda sem skilgreina sig með einhverja fötlun, hömlun eða langvarandi heilsufarsvandamál er um 39% sem er með því hæsta sem gerist í löndum Evrópu þar sem meðaltalið er 18%, en á Norðurlöndunum er meðaltalið 25%. Þá glíma 15% háskólanema hér á landi við andleg veikindi meðan hlutfallið er einungis 4% í Evrópu, og 18% glíma við sértæka námsörðugleika en meðaltalið í Evrópu er 3%.