Eftir að hafa starfað saman í tæpan áratug hjá stórri endurskoðunarstofu ákváðu þær Sigrún Guðmundsdóttir og Helga Harðardóttir, báðar löggiltir endurskoðendur, að stofna sína eigin stofu. Það gerðu þær nýlega undir merkjum BDO.

„Okkur fannst spennandi að skapa og þróa okkar eigið fyrirtæki,“ segir Sigrún í samtali við Viðskiptablaðið aðspurð um aðdragandann að nýju stofunni.

Sigrún segir áhugavert að skoða tölfræði um það hvernig stétt endurskoðenda er samsett en hingað til hafi þetta verið mjög karllæg stétt.

„Árið 1985 var hlutfall kvenna aðeins um 4% í þessari grein en í dag er það hlutfall rúm 20% og þá er átt við þá sem starfa við endurskoðun. Af útskrifuðum endurskoðendum er hlutfall kvenna um 29% og hefur aukist talsvert undanfarin ár,“ segir Sigrún.
„Þegar við fórum að skoða þetta aðeins betur kom okkur á óvart hvað margar konur leita út úr stéttinni eftir löggildingu. Ég tel það fyrst og fremst stafa af því hversu ófjölskylduvæn vinna þetta hefur verið. Við sjáum þó að konur virðast hafa leitað á stóru stofurnar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölubl-ð.