Hlutfall kvenkyns stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum var 26,5% í árslok 2019 að því er Hagstofa Íslands greinir frá upp úr hluthafaskrá. Hlutfallið var á bilinu 21,3% til 22,3% á árunum 1999 til 2006, hækkaði svo í 25,5% árið 2014 og hefur verið um 26% síðustu ár.

Í fyrirtækjum með fleiri en 50 launþega hækkaði hlutfall kvenkyns stjórnarmanna um 1,1 prósentustig á síðasta ári, og var það 34,7% í árslok.

Til samanburðar var hlutfall þeirra í stjórnum stórra fyrirtækja 12,7% árið 2007 og 9,5% árið 1999, en lög um að hlutfallið ætti að vera yfir 40% í slíkum fyrirtækjum góku gildi í september 2013.

Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra hækkar lítillega á milli ára, og er það komið 23,0%, sem fylgir eftir hægfara aukningu allt frá 1999. Hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var 24,3% í lok árs 2019.