„Ef mögulegt væri að hækka laun kvenna nákvæmlega til jafns við karla, miðað við niðurstöður könnunarinnar, myndu laun kvenna innan VR því hækka um 5.327.091,504 krónur, þ.e tæpa fimm milljarða á ársgrundvelli.“ Þetta segir í grein sem Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, skrifar í Morgunblaðið í dag. Þar vísar Stefán Einar til launakönnunar VR sem meðal annars leiddi í ljós að 9,4% munur er á launum kvenna og karla.

„Nú þegar niðurstöður launakönnunarinnar fyrir síðasta ár liggja fyrir, hef ég látið taka saman upplýsingar sem gefið geta einhverja mnd af því hversu háar upphæðirnar eru sem 60% félagsmanna VR eru að verða af vegna þess að atvinnurekendur telja sér stætt á að greiða konum lægri laun en körlum,“ segir Stefán Einar.

Niðurstöður launakönnunar VR voru birtar í síðustu viku. Í kjölfarið hafa fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar vakið athygli á niðurstöðunum og birta meðal annars heilsíðuauglýsingar í dagblöðum í dag þar sem vakin er athygli á 9,4% kynbundnum launamun.