„Konurnar eiga að bjarga Íslandi," segir í fyrirsögn á norska viðskiptavefnum e24.no .

Í frétt vefjarins er greint frá því að tvær konur hafi verið settar yfir Landsbankann og Glitni, þær Elín Sigfúsdóttir og Birna Einarsdóttir.

Í fréttinni er haft eftir nafnlausri heimild innan úr stjórnarráðinu að með því að setja konur í bankastjórastólana sé verið að reyna að breyta bankakúltúrnum.

„Konurnar taka nú völdin. Þetta er dæmigert. Karlarnir drasla til og konurnar taka til eftir þá," er haft eftir þessari sömu nafnlausu heimild.

Sagt er í fréttinni að eitt fyrsta verkefni hinna nýju bankastjóra verði þó að koma á eðlilegum viðskiptum með íslensku krónuna. Slík viðskipti liggi nú niðri.