*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 9. maí 2013 13:05

Kópavogsbær greiddi upp Vatnsendalán í fyrra

Árið 1999 greiddi Kópavogsbær 237 milljónir vegna eignarnáms á Vatnsenda með verðtryggðu skuldabréfi sem bar óhagstæða vexti.

Hallgrímur Oddsson
Haraldur Guðjónsson

Kópavogsbær greiddi í fyrra upp skuldabréf sem bærinn gaf út árið 1999 í tengslum við eignarnám 90,5 hektara lands á Vatnsenda. Þá var samið um að greiða dánarbúi Magnúsar Hjaltested, föður Þorsteins Hjaltested, 237 milljónir króna í formi verðtryggðs skuldabréfs.

Að sögn Örnu Schram, upplýsingafulltrúa Kópavogsbæjar, var bréfið greitt upp í fyrra vegna óhagstæðra vaxtakjara en það bar 6% ársvexti. Skuldabréfið var upphaflega til innheimtu hjá Búnaðarbankanum og er Kópavogsbæ ekki kunnugt um hver hafi tekið á móti greiðslunum.

Fram kom í dómi Hæstaréttar í síðustu viku, þar sem niðurstaðan var sú að eignarhald á Vatnsenda tilheyrði dánarbúi Sigurðar Hjaltested, afa Þorsteins, að eftir andlát Magnúsar Hjaltested árið 1999 hefði jörðinni verið þinglýst á Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur, ekkju Magnúsar. Um ári síðar var jörðinni síðan þinglýst á Þorstein og gera má ráð fyrir að hann hafi tekið á móti greiðslum í samræmi við eignarnámssáttina við Kópavogsbæ.

Ítarlega er fjallað um Vatnsendamálið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.