*

fimmtudagur, 29. október 2020
Innlent 16. október 2015 13:49

Kópavogsbær inn á lánamarkaðinn

Bæjarstjórinn segir þetta ódýrari leið en að greiða niður leigu.

Trausti Hafliðason
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Haraldur Guðjónsson

Kópavogsbær hefur kynnt róttækar hugmyndir í húsnæðismálum bæjarins. Hugmyndirnar eru afrakstur vinnu starfshóps sem skipaður var í júlí í fyrra og skilaði skýrslu með ýmsum tillögum fyrir nokkrum dögum. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, var formaður starfshópsins.

Róttækasta tillaga hópsins snýr að félagslega íbúðakerfinu. Mjög ákveðnar reglur gilda um leigu á félagslegu húsnæði. Rétturinn er bundinn við tekjur fólks og samkvæmt gildandi reglum ber að segja samningnum upp ef fólk fer yfir ákveðin tekjumörk.  Í stað þess að segja leigusamningnum upp leggur starfshópurinn til að þessu fólki verði boðið að kaupa íbúðina sem það hefur leigt og fá til þess 95% lán. Fólk þarf sem sagt aðeins að eiga fyrir 5% útborgun því gert er ráð fyrir að það fái 80% lán hjá fjármálastofnun og svo ætlar bærinn sjálfur að veita 15% viðbótarlán sem verður vaxtalaust í fimm ár.

„Það er ákveðin láglaunagildra í félagslega íbúðakerfinu í dag," segir Ármann Kr. „Ef fólk fær launahækkun og fer þar með yfir tekjumarkið þá ber því að skila íbúðinni burtséð frá því hvort það geti staðist greiðslumat og keypt sér sína eigin íbúð. Hættan er sú að þetta fólk fari út á almenna leigumarkaðinn, þar sem leiguverð er miklu hærra en í félagslega kerfinu. Þar með má segja að launahækkunin verði að engu. Við erum að reyna að koma til móts við þennan hóp. Við viljum koma fólki út úr þessari gildru þannig að það geti blómstrað. Ég vil undirstrika að þó fólk kaupi íbúðina þá er það enn inni í félagslega kerfinu. Það sem við erum að leggja til er ekkert ósvipað gamla verkamannabústaðakerfinu."

Spurður hvort rétt sé að sveitarfélag stundi lánastarfsemi með þessum hætti svarar Ármann Kr.: „Ég spyr á móti, hver er munurinn á því að við hjálpum að hluta til með fjármögnun eða greiðum niður leigu? Ég tel að þetta sé ódýrari leið en að greiða niður leigu og ég tel ekki að við séum að fara gegn fjármálamarkaðnum með þessu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.