Kópavogsbær auglýsir eftir áhuga þróunarfélaga, fjárfesta, byggingarfélaga og annarra á kaupum á fasteignum í Fannborg í Kópavogi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bænum, en Fannborg 2, 4 og 6 hefur hýst Bæjarskrifstofur Kópavogs. Nýtt húsnæði stjórnsýslu bæjarins er að Digranesvegi 1 og hefur það verið tekið í notkun að hluta.

Flutningar stjórnsýslu Kópavogsbæjar úr Fannborg standa yfir og hefur bæjarstjórn samþykkt að hefja opið söluferli fasteignanna Fannborg 2, 4 og 6, þar sem tekið verði tillit til niðurstaðna húsnæðisskýrslu starfshóps bæjarráðs um stöðu húsnæðismála frá árinu 2015.

Tilboðum í fasteignirnar, ásamt framtíðarsýn um notkun þeirra, skal skilað til fasteignasölu eigi síðar en fimmtudaginn 12. október næstkomandi. Fasteignasölurnar sem sjá um söluna fyrir Kópavogsbæ eru Domusnova, Eignaborg, Eignamiðlun, Lind og Stakfell.