Um 3 þúsund hektara svæði frá Heiðmörk upp í Bláfjöll hefur verið úrskurðað innan landamerkja Kópavogs. Hæstiréttur kemst þannig að sömu niðurstöðu og Héraðsdómur Reykjavíkur, sem dæmdi í málinu í ágúst 2016. Reykjavíkurborg áfrýjaði þeim dómi og krafðist þess að allt 8.000 hektara landsvæðið austan Heiðmarkar lyti lögsögu borgarinnar.

Af þessum um 8.000 hekturum höfðu áður um 5.000 verið innan staðarmarka Kópavogs og stækkar lögsaga bæjarins um 3.000 hektara við ákvörðunina nú. Skipulagsvald svæðisins færist því til Kópavogs frá Reykjavíkurborg, en þess má geta að landið er ekki samtengt restinni af Kópavogi, heldur skilur Heiðmörkin sem er í eigu Reykjavíkur landið frá Kópavogi.

Var hluti af Seltjarnarneshreppi hinum forna

Svæðið hafði allt verið undir Seltjarnarneshreppi hinum forna, sem var skipt upp milli núverandi Seltjarnarnes og Kópavogs árið 1948, en Reykjavík taldi um 5.000 hektara geil sem skipti landi Kópavogs í tvennt lúta sinni lögsögu því það var afrétt lands í eigu borgarinnar.

Úrskurðir dómstólanna taka hins vegar tillit til þess að allt frá því að Reykjavík var veitt kaupstaðarréttindi árið 1786 hafi allar þær jarðir sem síðan færðust yfir til borgarinnar verið felldar undir yfirráðasvæði hennar með lögum, annað hvort áður eða eftir að Reykjavíkurborg eignaðist þær.

Svo hafi hins vegar ekki verið gert með þetta svæði, úr landi Elliðavatns, sem nær frá Heiðmörk og upp í Bláfjöll, en þangað til árið 2009 tilheyrði landið Reykjavík, stjórnsýslulega sem og samkvæmt eignarhaldi. Það breyttist þó með úrskurði óbyggðanefndar árið 2006 sem var staðfest í Hæstarétti árið 2009, og hefur landið síðan verið talið þjóðlenda.